154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[13:13]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var ágæt og yfirgripsmikil ræða hjá hv. þingmanni. Það er gagnlegt að ræða það hér hvað eru fjárlög, hvað er fjárlagafrumvarp. Þetta eru einfaldlega heimildir ríkisins til að taka skatta af fólki og heimildir ríkisins til að eyða þeim sömu fjármunum ásamt ráðstöfunum eigna og skuldbindingum. Þess vegna er nauðsynlegt hér í þessum sal að rýna einstaka liði, spyrja spurninga og fá svör. Hv. þingmaður kom hérna inn á tímabundið framlag, 15 millj. kr. til Samtakanna '78 og tók undir eða það mátti skilja það þannig að þar með væru allar fjárheimildir til þessara ágætu samtaka að falla niður. Þá er ágætt að koma því að hér að fyrir tveimur, þremur árum síðan voru fjárheimildir og framlög til þessara samtaka innan ramma forsætisráðuneytisins og viðbótarframlag vegna fræðslufulltrúa er þá að falla niður. Það er hið augljósa og rétta, ef eitthvað er tímabundið þá er það tímabundið og þarf þá nýjar ráðstafanir. En það er alveg skýrt í máli hæstv. forsætisráðherra að þessar heimildir eru engan veginn að falla niður. Þess vegna er ágætt að ræða þessi mál og forða frekari misskilningi um svona þætti. En það sem ég vil einnig velta hér upp er þegar hv. þingmaður er að ræða um stöðugleikann, mig langar að átta mig betur á því hvað hann á við með stöðugleika, hvers konar stöðugleika. Stöðugleiki getur ekki verið, væntanlega erum við sammála um það, stöðnun sem getur leitt til afturfarar. Horfum á tímabilið frá 2013–2020 í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins þar sem meðalverðbólga var alla jafna rétt um 2,4%. Einstök frávik upp eða niður. Þetta var stöðugleiki. En svo kemur heimsfaraldur, það er ekki lengur stöðugleiki, það þarf að bregðast við. (Forseti hringir.) Hvað á hv. þingmaður nákvæmlega við? Hvernig vill hann sjá stöðugleika og tryggja það að íslenskt efnahagslíf eða ríkisfjármál séu óháð ytri aðstæðum heimsins?